Minningarsjóðnum hefur borist einstök gjöf. Gísli Holgersson málaði mynd af Lofti eftir að hafa kynnst honum fyrir nokkrum árum. Hann segir söguna hér að neðan. Myndin verður seld á uppboði hér á siðunni næstu 4 vikurnar. Lágmarksboð er 50.000 og mun hún verða seld hæstbjóðanda. 

Vinsamlegast sendið tilboð á thorunn100@hotmail.com

Sjá fyrir neðan umfjöllun DV um myndina. 

„Ég sat heima við og var að mála minningar frá Vík í Mýrdal þegar síminn hringdi. Mér brá við fréttirnar af andláti Lofts og sneri mér að nýju verkefni og byrjaði að mála Loft eftir minni,“ segir Gísli Holgersson sem málaði mynd af Lofti Gunnarssyni sem lést fyrir aldur fram 20. janúar 2012. Loftur var útigangsmaður og eftir andlát hans var stofnaður minningarsjóður í nafni hans. Sjóðurinn hefur það að markmiði að berjast fyrir lögbundnum mannréttindum útigangsfólks.  

Gísli hefur fært minningarsjóðnum myndina að gjöf og stefnt er að því að bjóða hana upp og láta ágóðann renna til minningarsjóðsins. Þann tíma sem minningarsjóðurinn hefur verið starfandi hafa, meðal annars, verið keypt ný rúm fyrir Gistiskýlið og Konukot en hvort tveggja er næturathvarf fyrir heimilislaust fólk sem flest á við vímuefnavanda að stríða. 

Gísli er úr Garðabæ en þaðan var Loftur líka. Leiðir þeirra lágu saman á unglingsárum Lofts en þá rak Gísli GH heildverslun á Garðatorgi. „Þeir sem ekki muna Loft, þá var hann hár vexti, hafði afar fallega framkomu og var með himinblá stór augu sem nánast var ekki hægt að víkja sér undan. Loftur kom inn og spurði mig hvort ég ætti góða sápu og blöðkur til að strjúka af glerinu. Ég átti það til og Loftur lauk verkinu af einlægni og sóma. Stundum kom það fyrir að aðrir búðareigendur báðu einnig um hreinsun á sama tíma fyrir sanngjarnt verð,“ segir Gísli. 

Hann segir Loft hafa verið vel gefinn og fannst mikið til hans koma. „Loftur var einstakur fyrir vinsemd, góðmennsku og fallega framkomu. Ég trúi því að Loftur hafi oft kallað til æðri staða um hjálp fyrir sjálfan sig og aðra sem voru undir í lífinu.

Myndir,Sigtryggur Ari/DV ehf 
Gísli Holgersson ásamt Þórunni Brandsdóttur, móður Lofts Gunnarssonar

Gísli Holgersson ásamt Þórunni Brandsdóttur, móður Lofts Gunnarssonar

52f8f72ca7bea5521143369c354bbf65.jpg