Stórum áfanga náð...

Minningarsjóður Lofts Gunnarssonar náði í dag fyrsta stóra áfanga sínum þegar hann afhenti Gistiskýlinu Þingholtsstræti 20 ný rúm með yfirdýnum, sængum og koddum að verðmæti 1.5 milljónir króna. 

Sjóðurinn er stofnaður af móður Lofts, Þórunni Brandsdóttur ásamt Ölmu Rut Lindudóttur, Hrafnhildi Jóhannesdóttur, Ásrúnu Björk Gísladóttur og Tinnu Óðinsdóttur. Þær sitja í stjórn sjóðsins ásamt systkinum Lofts þeim Ellen Ágústu Björnsdóttur, Brandi Gunnarssyni og Kolbrúnu Petreu Gunnarsdóttur. 

Sjóðurinn hefur fengið styrki frá einstaklingum og fyrirtækjum ásamt því að Frosti Logason og Þorkell Máni á X-977 hafa styrkt sjóðinn höfðinglega með tveimur styrktartónleikum. Helga Hafsteinsdóttir vinkona Lofts styrkti sjóðinn um yfir 100 þúsund krónur með áheitum sem hún safnaði þegar hún fórnaði hárinu til styrktar sjóðnum. Jón Sæmundur í Dead handgerði boli með mynd af Lofti sem voru seldir til styrktar sjóðnum. Merking gaf skilti á rúmin. 

Að auki afhenti Rebekka Hólm Halldórsdóttir sjóðnum 100.000 krónur til kaups á rúmunum auk þess sem hún gaf 20 lök og sængurföt á rúmin. Einnig gaf Rebekka heimilislausum einstaklingum 50 bakpoka fulla af nauðsynjavöru. Eins og fjallað hefur verið um þá stóð Rebekka sem er 8 ára gömul fyrir söfnun fyrir útigangsfólk eftir að útigangsmaður gaf henni blóm í Hagkaup. Hún safnaði yfir 300.000 krónum frá einstaklingum ásamt stærri framlögum frá Hagkaupum, Pennanum, Rúmfatalagernum og Krónunni. 

Fyrir hönd Gistiskýlisins tóku þeir Karl V. Matthíasson, Þórir Haraldsson og Tryggvi Magnússon á móti gjöfunum. Fyrir hönd Velferðarráðs Reykjavíkur tók Magdalena Kjartansdóttir á móti gjöfunum. 

Minningarsjóður Lofts Gunnarssonar er stofnaður í minningu Lofts og er tilgangur hans að bæta hag útigangsmanna í Reykjavík ásamt því að berjast fyrir að lögbundnum mannréttindum þeirra séu virt af borg og ríki.

Ljósmyndir tók Elísabet Sóley Stefánsdóttir. Á myndunum er Frosti og Þorkell Máni ásamt Rebekku. Þórunn Brandsdóttir ásamt Rebekku. Alma Rut Lindudóttir, Hrafnhildur Jóhannesdóttir, Ellen Ágústa Björnsdóttir, Þórunn Brandsdóttir.