11. September 2015

í dag þá hefði Loftur orðið 36 ára. Það er við hæfi að fara yfir síðusta ár sjóðsins. Hvíldu í friði bróðir.

Undanfarið ár hefur margt gerst hjá Minningarsjóðnum. Sjóðurinn hlaut góðan styrk frá Dominos sem styrkti okkur í heila viku um sölu góðgerðarpizzunnar. Margir aðrir góðir aðilar hafa styrkt sjóðinn og hjálpað okkur að halda honum gangandi. Fyrir stuttu kom út endurgerð af hermannajakkanum hans Lofts sem Gunni mágur hans og Kolla systir sáu um. Jakkinn heppnaðist vægast sagt vel. Við viljum þakka öllum sem hafa keypt jakkann, ljóðabókina, lagt inn á sjóðinn eða styrkt okkur á annan hátt. Þessi stuðningur hefur gert sjóðnum kleyft að halda áfram að styðja við starfsemi fyrir útigangsfólk á Íslandi. Sjóðurinn hélt áfram að endurnýja rúm í úrræðunum og eru nú einnig komin ný rúm og sængurbúnaður í Dagsetrið, úrræðið á Njálsgötu og að hluta til í úrræðin á Miklubraut og Hringbraut. Einnig var keypt hræri-og matvinnsluvél fyrir Dagsetrið. Keyptir voru tveir sófar og sófaborð í Gistiskýlið Lindargötu og smá heimilispakkar fyrir einstaklinga sem búa í úrræðinu á Hringbraut. Á þorláksmessu afhenti sjóðurinn Dagsetrinu og Njálsgötu 50 sett af ullarnærfötum fyrir heimilislausa auk húfa, sokka og vettlinga. Sjóðurinn hefur svo nýverið lokið við að kaupa uppþvottavél, frystiskáp og sjónvarp, sófa o.fl. fyrir Götusmiðjuna. Við í sjóðnum hlökkum til að sjá hvernig þessi úrræði munu þróast til betri vegar í framtíðinni og vonumst til að geta lagt okkar af mörkum með ykkar hjálp.