11. September 2015

í dag þá hefði Loftur orðið 36 ára. Það er við hæfi að fara yfir síðusta ár sjóðsins. Hvíldu í friði bróðir.

Undanfarið ár hefur margt gerst hjá Minningarsjóðnum. Sjóðurinn hlaut góðan styrk frá Dominos sem styrkti okkur í heila viku um sölu góðgerðarpizzunnar. Margir aðrir góðir aðilar hafa styrkt sjóðinn og hjálpað okkur að halda honum gangandi. Fyrir stuttu kom út endurgerð af hermannajakkanum hans Lofts sem Gunni mágur hans og Kolla systir sáu um. Jakkinn heppnaðist vægast sagt vel. Við viljum þakka öllum sem hafa keypt jakkann, ljóðabókina, lagt inn á sjóðinn eða styrkt okkur á annan hátt. Þessi stuðningur hefur gert sjóðnum kleyft að halda áfram að styðja við starfsemi fyrir útigangsfólk á Íslandi. Sjóðurinn hélt áfram að endurnýja rúm í úrræðunum og eru nú einnig komin ný rúm og sængurbúnaður í Dagsetrið, úrræðið á Njálsgötu og að hluta til í úrræðin á Miklubraut og Hringbraut. Einnig var keypt hræri-og matvinnsluvél fyrir Dagsetrið. Keyptir voru tveir sófar og sófaborð í Gistiskýlið Lindargötu og smá heimilispakkar fyrir einstaklinga sem búa í úrræðinu á Hringbraut. Á þorláksmessu afhenti sjóðurinn Dagsetrinu og Njálsgötu 50 sett af ullarnærfötum fyrir heimilislausa auk húfa, sokka og vettlinga. Sjóðurinn hefur svo nýverið lokið við að kaupa uppþvottavél, frystiskáp og sjónvarp, sófa o.fl. fyrir Götusmiðjuna. Við í sjóðnum hlökkum til að sjá hvernig þessi úrræði munu þróast til betri vegar í framtíðinni og vonumst til að geta lagt okkar af mörkum með ykkar hjálp.

Fimmtudaginn 13. febrúar bauð Velferðarráð Reykjavíkurborgar Minningarsjóð Lofts Gunnarssonar á fund. Sjóðurinn hlaut viðurkenningu fyrir vel unnin störf í þágu utangarðsfólks.

Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi skrifaði á  facebook

„Velferðarráð fékk í dag heimsókn frá forsvarskonum Minningargjafasjóðs Lofts Gunnarssonar. Sjóðurinn hefur staðið fyrir eftirtektarverðum gjöfum til Gistiskýlisins og Konukots og annars í þágu utangarðsfólks.
Velferðarráð samþykkti svo nýja stefnu í málefnum utangarðsfólks til ársins 2018.“

 

Velferðarráð.jpg

Konukot

Þann 28. janúar þá voru keypt 9 ný rúm, sængur, koddar og sængurföt voru keypt í Konukot.

Konukot er næturathvarf fyrir heimilislausar konur og er samstarfsverkefni Rauða Krossins í Reykjavík og Reykjavíkurborgar.

Fjórir aðilar tóku sig saman um kaupin. 

Minningarsjóður Lofts Gunnarssonar, Kvenfélagið Silfur, Veitingastaðurinn 900 Grillhús í Vestmannaeyjum og nafnlaus gjöf í minningu Sigrúnar Kristbjörgu Tryggvadóttur.

Hér eru tenglar á fréttir um þetta:

http://www.dv.is/frettir/2014/1/28/thad-er-alveg-rosalega-mikil-thorf-fyrir-rumin/

http://kvennabladid.is/2014/01/28/konukot-faer-gjafir/

Rúm konukot1.jpg

Pétur Ben og The Kings of the Underpass

Hinn frábæri tónlistarmaður Pétur Ben flutti lagið The Kings of the Underpass fyrst á minningartónleikum um Loft Gunnarsson 11. september í fyrra. Nú hefur hann tekið lagið upp og er það komið í mikla spilun á X977.

Lagið varð til þegar Pétur horfði á myndband Frosta Runólfssonar til minningar um Loft. Þetta segir Pétur Ben í samtali við fréttablaðið „Ég slökkti á hljóðinu, þrátt fyrir að lagið við myndbandið sé ákaflega fallegt. Ég horfði á myndbandið án hljóðs. Ég hef örugglega spilað það nokkur hundruð sinnum áður en ég kláraði lagið,“ útskýrir Pétur. Pétur er úr Garðabænum, eins og Loftur var og man eftir Lofti á þeirra yngri árum „Ég þekkti hann ekki beint. En ég man vel eftir honum. Hann var ótrúlega svalur strákur. Ég man eftir honum í undirgöngunum sem ég syng um í laginu, á hjólabretti.“ Pétur mun flytja lagið á jólatónleikum X-ins 977, en lagið er nýkomið í spilun á útvarpsstöðinni.

„Mér er það bæði skylt og ljúft að koma fram á þessum tónleikum. Þetta er sú útvarpsstöð sem hefur spilað lögin mín mest og þetta er málefni sem skiptir mig miklu máli,“ segir Pétur. Þorkell Máni Pétursson, útvarpsstjóri X-ins, tekur undir þau orð Péturs.„Þetta er málefni sem allir eiga að geta stutt. Ég skora hér með opinberlega á Vigdísi Hauksdóttur að mæta á tónleikana. Hún hefur talað fyrir því að skera niður þróunaraðstoð úti í heimi og vill einbeita sér að Íslendingum. Hún hlýtur því að mæta. Við hljótum öll að geta stutt heimilislausa, þetta á ekki að geta gerst á Íslandi að einhver sé heimilislaus.“ 

Allur ágóði þessara árlegu tónleika mun renna í minningarsjóð Lofts Gunnarssonar, en sjóðurinn hefur það að markmiði að bæta aðbúnað heimilislausra hér á landi. Félagarnir í Harmageddon, þeir Máni og Frosti Logason, hafa stutt við málefnið og eru ánægðir með lagið hans Pétturs. 
„Við elskum þetta lag. Hugmyndavinna við myndbandið er komin af stað. Lagið hefur fengið frábærar undirtektir hérna á X-inu,“ útskýrir Máni. 

Tónleikarnir fara fram á föstudaginn í Austurbæ. „Miðaverðinu er stillt í hóf, fólk borgar undir tvö hundruð krónur fyrir hverja hljómsveit sem kemur fram. Þetta verða magnaðir tónleikar. Reyndar hryggir það einhverja að þetta séu síðustu tónleikar X-ins sem Ómar Ómar útvarpsmaður X-ins er með okkur. Hann er að hætta hjá okkur og gengur til liðs við Stórveldið,“ segir Máni. Tónleikarnir bera titilinn Xmas og munu Leaves, Grísalappalísa, Drangar, Mammút, Kaleo, Ojbarasta, Þröstur upp á Heiðar, 1860, Vök og Skepna koma fram, ásamt Pétri Ben. 

Miðasala er hafin á vefsíðunni midi.is.

Hér er linkur á lagið á soundcloud: 

https://soundcloud.com/petur-ben/kings-of-the-underpass

Stórum áfanga náð...

Minningarsjóður Lofts Gunnarssonar náði í dag fyrsta stóra áfanga sínum þegar hann afhenti Gistiskýlinu Þingholtsstræti 20 ný rúm með yfirdýnum, sængum og koddum að verðmæti 1.5 milljónir króna. 

Sjóðurinn er stofnaður af móður Lofts, Þórunni Brandsdóttur ásamt Ölmu Rut Lindudóttur, Hrafnhildi Jóhannesdóttur, Ásrúnu Björk Gísladóttur og Tinnu Óðinsdóttur. Þær sitja í stjórn sjóðsins ásamt systkinum Lofts þeim Ellen Ágústu Björnsdóttur, Brandi Gunnarssyni og Kolbrúnu Petreu Gunnarsdóttur. 

Sjóðurinn hefur fengið styrki frá einstaklingum og fyrirtækjum ásamt því að Frosti Logason og Þorkell Máni á X-977 hafa styrkt sjóðinn höfðinglega með tveimur styrktartónleikum. Helga Hafsteinsdóttir vinkona Lofts styrkti sjóðinn um yfir 100 þúsund krónur með áheitum sem hún safnaði þegar hún fórnaði hárinu til styrktar sjóðnum. Jón Sæmundur í Dead handgerði boli með mynd af Lofti sem voru seldir til styrktar sjóðnum. Merking gaf skilti á rúmin. 

Að auki afhenti Rebekka Hólm Halldórsdóttir sjóðnum 100.000 krónur til kaups á rúmunum auk þess sem hún gaf 20 lök og sængurföt á rúmin. Einnig gaf Rebekka heimilislausum einstaklingum 50 bakpoka fulla af nauðsynjavöru. Eins og fjallað hefur verið um þá stóð Rebekka sem er 8 ára gömul fyrir söfnun fyrir útigangsfólk eftir að útigangsmaður gaf henni blóm í Hagkaup. Hún safnaði yfir 300.000 krónum frá einstaklingum ásamt stærri framlögum frá Hagkaupum, Pennanum, Rúmfatalagernum og Krónunni. 

Fyrir hönd Gistiskýlisins tóku þeir Karl V. Matthíasson, Þórir Haraldsson og Tryggvi Magnússon á móti gjöfunum. Fyrir hönd Velferðarráðs Reykjavíkur tók Magdalena Kjartansdóttir á móti gjöfunum. 

Minningarsjóður Lofts Gunnarssonar er stofnaður í minningu Lofts og er tilgangur hans að bæta hag útigangsmanna í Reykjavík ásamt því að berjast fyrir að lögbundnum mannréttindum þeirra séu virt af borg og ríki.

Ljósmyndir tók Elísabet Sóley Stefánsdóttir. Á myndunum er Frosti og Þorkell Máni ásamt Rebekku. Þórunn Brandsdóttir ásamt Rebekku. Alma Rut Lindudóttir, Hrafnhildur Jóhannesdóttir, Ellen Ágústa Björnsdóttir, Þórunn Brandsdóttir.